13. júlí 2018 : Þriggja laga hnetugott

Heil og sæl! Síðustu dagar hjá mér hafa verið frekar pakkaðir en ég náði loksins að finna mér tíma og leika mér smá í eldhúsinu en ég held að þetta sé flóknasta uppskriftin mín hingað til enda er hún þriggja laga! Hún er samt þess virði, ég lofa! Ég er búin að vera með hnetusmjör á heilanum undanfarna daga og vildi gera eitthvað gotterí helst úr hnetusmjöri og dökku súkkulaði. Mér datt í hug að gera einhvers konar þriggja laga heimagert "snickers" og var útkoman alveg hreint frábær! Fyrsta lagið er kremlag gert úr kasjúhnetum og kókosolíu ásamt smá hafrahveiti. Það var mjög gaman að prófa sig áfram með kasjúhnetum og á næstunni mun ég klárlega gera fleiri uppskriftir þar sem ég nota kasjúhnetur. Ég lagði þær í bleyti í nokkrar klst en þær verða svo rjómakenndar ef það er gert. Annað lagið er hnetusmjörslag gert úr hnetusmjöri og döðlum, það er svo gott kombó að ég get borðað það eintómt! Þriðja og síðasta lagið er gómsætt dökkt súkkulaði, því súkkulaði gerir einfaldlega allt betra. 

30. júní 2018 : Túrmerik: Allra meina bót

Heil og sæl! Ég er nýdottin á túrmerik lestina en áður fyrr vissi ég lítið sem ekkert um kryddið og heilsueiginleika þess. Ég hef verið að lesa mér til um túrmerik síðustu daga og vildi endilega deila með ykkur smá fróðleik. Ég deili einnig frískandi uppskrift af heitum túrmerik drykk sem er frábær til að byrja daginn sinn á! Túrmerik eða gullinrót á íslensku er krydd frá Asíu sem hefur verið notað í þúsundir ára en það var fyrst notað sem litur en ekki krydd. Heilsueiginleikar túrmeriks komu svo í ljós í gegnum aldirnar og það má segja að túrmerik sé allra meina bót en hún hefur einnig verið mikið notuð sem lækningajurt í austrænni læknisfræði.

22. júní 2018 : Sumarlegar orkukúlur

Heil og sæl! Nú er sólin loksins farin að láta sjá sig eitthvað í þessum mánuði og því fannst mér tilvalið að skella í orkukúlur í sumarlegum búningi. Ég geri orkukúlur reglulega heima því þær eru svo einfaldar að búa til og það er svo þægilegt að grípa í 1-2 kúlur ef manni langar í eitthvað hollt en sætt. Ég prófaði að nota örlítið af apríkósum í þetta sinn sem var skemmtileg tilbreyting en ég hef alltaf notað döðlur í orkukúlugerð. Í þessari uppskrift er hægt að nota einungis döðlur eða einungis apríkósur en ég vildi prófa að nota bæði, það fer bara eftir hvað maður er meira fyrir. Ég prófaði líka að nota sítrónu í orkukúlurnar til að gefa smá sumarfíling en henni má alveg sleppa ef maður vill, ég mæli þó með að prófa að setja örlítið af sítrónusafa því það passar svo vel saman við kókosinn! 

31. maí 2018 : Ristað kókossmjör

Heil og sæl! Jafnvel þó að það sé búið að rigna allan mánuðinn þá ætla ég ekki að láta það stoppa mig í sumaruppskriftunum mínum! Ég vinn mikið með kókos í eldhúsinu og rakst á skemmtilega hugmynd á netinu, kókossmjör! Kókossmjör er ekki það sama og kókosolía en kókosolía er búin til með því að pressa olíu úr kókosinum sjálfum og er tilvalin í eldamennskuna. Kókossmjör er búið til með því að blanda kókosinum saman og í því ferli losnar um olíurnar sem eru í kókosinum alveg eins og gerist með hnetusmjör! Kókosolía er því einungis olían úr kókosinum sjálfum en kókossmjör er bæði kókosinn og olían. Í þessari uppskrift ristaði ég kókosmjölið en það er alls ekki nauðsynlegt. Ef þú vilt mikið kókosbragð mæli ég ekki með að rista kókosinn því það breytir bragðinu örlítið. 

30. maí 2018 : Ásdís Grasa: Heilsueflandi jurtir í mataræðið

Heilsueflandi jurtir eru góð viðbót í mataræðið okkar. Vilt þú læra hvernig þú getur notað lækningajurtir í mataræðinu þínu fyrir stórkostlega heilsu, orku og vellíðan?

30. maí 2018 : Guðrún Bergmann: Laxerolía er alger undraolía

Hver hefur ekki heyrt um hægðalosandi áhrif laxerolía. Lexerolían hefur hins vegar öldum saman verið notuð til lækninga víða um heim, þar sem hún gagnast m.a. einstaklega vel við bólgum og býr yfir bakteríudrepandi eiginleikum. Eiginleikar hennar gera það að verkum að hún er til margs nýtileg og í þessari grein fjalla ég einungis um smá brot af því.

Talið er að Egyptar til forna hafi verið þeir fyrstu til að byrja að nota olíuna og þar hafa fundist Castor-baunir sem olían er unnin úr í grafhýsum frá 4.000 f. Krist. Sagt er að Cleopatra hafi notað hana til að gera hvítuna í augum sínum hvítari (betri hægðalosun og hreinni ristill hefur m.a. þau áhrif) og sem áburð á húðina.

18. maí 2018 : Sumargranóla með kókos og þurrkuðum mangó

Heil og sæl! Ég er svo sannarlega komin í sumarskap og er búin að vera að leika mér í eldhúsinu með sumarleg hráefni eins og kókos og mangó ...  þá kviknaði sú hugmynd að gera sumargranóla! Sjálf er ég mikið fyrir granóla og geri reglulega mitt eigið en ég mæli sérstaklega með heimalöguðu súkkulaðigranóla. Granóla er æðislegt út á grautinn eða jógúrtið og svo þykir mér líka algjört nammi að borða það eitt og sér! Ég notaði meðal annars hafra og kókos ásamt fræblöndu frá Himneskri Hollustu sem var alveg tilvalin í granólagerð! Það var líka svo skemmtilegt að vinna með þurrkaða mangóbita og guli liturinn kemur manni klárlega í sumarskap! 

11. maí 2018 : Asta Eats: Coconut Bowls

Heil og sæl! Eftir krefjandi en skemmtilegar 15 vikur í skólanum er ég loksins komin í sumarfrí! Ég ákvað að verðlauna mig og kaupa mér eitt sem mér hefur langað í mjög lengi, kókoshnetuskál frá Coconut Bowls! Ég er búin að fylgja Coconut Bowls á Instagram í langan tíma og lét loksins verða að því og keypti skálar og skeiðar í stíl. Ég keypti mér 'The Coco Combo' sem inniheldur tvær kókoshnetuskálar, eina grófa og eina fína, og tvær kókoshnetuskeiðar. Það er hægt að kaupa gaffla í staðinn eða bæði skeiðar og gaffla. Ég notaði afsláttarkóðann ecofriendly sem gaf mér 10% afslátt og já, þau senda til Íslands!

30. apríl 2018 : Haframuffins

Heil og sæl! Ef þú ert komin með smá leið á klassíska hafragrautinum eins og ég þá er þetta uppskrift fyrir þig! Þessar ljúffengu haframuffins eru fullkomnar til að byrja daginn og það er jafnvel hægt að útbúa deigið kvöldið áður ef maður hefur lítinn tíma á morgnana eða ef maður vill sofa örlítið lengur. Þar sem að kanill er í algjöru uppáhaldi datt mér í hug að gera haframuffins með eplum því þau passa svo vel við kanilinn. Það er auðvitað hægt að skipta því út fyrir eitthvað annað hráefni t.d. banana og hnetusmjör eða jafnvel jarðaber og kókos svo það er um að gera að prófa sig áfram!

25. apríl 2018 : Súkkulaðihnetusmjör

Heil og sæl! Hnetusmjör er í miklu uppáhaldi hjá mér enda er bragðið frábært og heilsueiginleikar hnetusmjörsins eru margir. Flestar ef ekki allar hnetur innihalda holla og góða fitu, þ.e. einómettaða fitu (e. monounsaturated fat) sem lækkar magn LDL kólesterólsins, kallað "vonda kólesterólið“, og hækkar magn HDL kólesterólsins, kallað "góða kólesterólið, og stuðlar þannig að heilbrigðu hjarta- og æðakerfi. Hnetur innihalda einnig gott magn af próteini og trefjum. Þó að hnetur séu meinhollar er ekki mælt með að borða of mikið af þeim. Handfylli af hnetum á dag er tilvalið. Ég hef afskaplega gaman að því að búa til mitt eigið hnetusmjör en ég hef áður deilt uppskrift af möndlusmjöri og sérstöku jólahnetusmjöri gert úr valhnetum og pekanhnetum. Ég vildi prófa mig áfram í hnetusmjörsgerð og hugsaði með mér hvað ef ég prófa að gera súkkulaðihnetusmjör? Ég átti kasjúhnetur upp í skáp og kakó og það var ekki aftur snúið! Ég ákvað að nota kasjúhnetur því ég átti þær til en í raun er hægt að nota hvaða hnetur sem er, jarðhnetur, heslihnetur, valhnetur eða jafnvel möndlur. Þið verðið að prófa en súkkulaðihnetusmjörið er æðislegt á súrdeigsbrauð og með jarðaberjum!

Síða 1 af 17