18. september 2018 : Sætur hummus

  • Heil og sæl! Já, þið lásuð rétt - uppskrift dagsins er sætur hummus með súkkulaði og hnetusmjöri! Ég er alveg í skýjunum yfir þessum hummus og ég get ekki hætt að borða hann. Ég skal alveg viðurkenna að ég borða þennan hummus stundum eintóman, hann er hættulega góður! Annars er hann líka ljúffengur með jarðaberjum eða ofan á brauð eða beyglu. Ég nota að sjálfsögðu kjúklingabaunir í grunninn og tek hýðið af baununum svo hummusinn verður extra mjúkur. Þegar ég var að prófa mig áfram með þessa uppskrift hugsaði ég hvaða hráefni væru í hummus og notaði svipuð hráefni í sætari kantinum. Í staðinn fyrir sesamsmjör (e. tahini) notaði ég gróft hnetusmjör, í staðinn fyrir ólífuolíu notaði ég hlynsíróp, í staðinn fyrir sítrónusafa notaði ég kókosolíu og í staðinn fyrir salt notaði ég döðlusykur sem er í algjöru uppáhaldi í baksturinn. Döðlusykur er nefnilega ekki sykur heldur þurrkaðar döðlur sem eru svo malaðar niður í duft. Ég notaði svo kakóduft en passaði að setja ekki of mikið vegna þess að kakó er mjög bragðsterkt og því þarf ekki mikið af því. Þessi uppskrift er svo gómsæt, og svo auðveld. Eftir að maður er búinn að taka hýðið af kjúklingabaununum þá tekur enga stund að skella þessu öllu í matvinnsluvél, blanda og njóta!

31. ágúst 2018 : Ídýfa með kasjúhnetum og graslauk

Heil og sæl! Ég er á fullu að prófa mig áfram með kasjúhnetur í eldhúsinu og mig langaði að gera einhvers konar kasjúhnetu-rjómaosta-ídýfu, svolítið eins og hummus nema úr kasjúhnetum. Ef kasjúhnetur eru lagðar í bleyti þá verða þær svo rjómakenndar og það er hægt að búa til alls konar gúmmelaði úr þeim! Ég kalla þessa uppskrift 'ídýfu' en þetta getur alveg verið rjómaostur líka því það er æðislegt að skella ídýfunni beint á beyglu. Ég prófaði mig áfram með graslauk því ég átti nóg af honum til heima en það er líka hægt að prófa sólþurrkaða tómata, soðnar gulrætur eða rauðrófur jafnvel sætar kartöflur, bara hvað sem manni langar í! Ég mæli líka með að krydda ídýfuna með góðum kryddum, t.d. með ristuðum hvítlauki en ég notaði hvítlaukssalt. 

25. ágúst 2018 : Pastasalat með kjúkling og avocado

Heil og sæl! Ég vildi endilega deila með ykkur uppskrift af ljúffengu pastasalati sem að ég geri oft á mínu heimili og fyrir vinkonuhópinn en þetta salat slær alltaf í gegn! Ég kalla það 'mömmusalat' vegna þess að mamma gerði þetta salat oft þegar ég var yngri. Ég og systir mín hjálpuðum til og ég var alltaf svo spennt þegar það var mömmusalat í matinn. Ég setti minn eigin snúning á salatið og bætti avocado út á ásamt ristuðum kasjúhnetum til þess að fá smá 'crunch' en ég set oft hnetur í staðinn fyrir brauðteninga út á salöt. Ég nota oftast tilbúinn kjúkling sem að ég kaupi í Melabúðinni, alveg eins og mamma gerði. Það er líka í fínasta lagi að steikja sinn eigin kjúkling ef maður vill það frekar. Þetta salat er ljúffengt, auðvelt og fljótlegt! Svo er það æðislegt daginn eftir í hádegismat!

9. ágúst 2018 : 'Chunki Monki' granóla

Heil og sæl! Heimagert granóla er í allra uppáhaldi hjá mér því það er svo einfalt að búa það til sjálfur og það er hægt að gera granóla á óteljandi vegu! Ég hef meðal annars búið til jólagranóla, sumargranóla og súkkulaði granóla en að þessu sinni ætla ég að gera granóla með bönunum og hnetusmjöri! Ég stappa niður 1-2 banana og bræði hnetusmjör með hlynsírópi svo það verður mjúkt og blanda saman við hafra, kasjúhnetur, möndlur og kakónibbur. Ég veit að það eru ekki allir hrifnir af kakónibbum en þegar búið er að rista þær inn í ofni bragðast þær miklu betur svo ég mæli með að prófa, auk þess eru þær ótrúlega hollar og stútfullar af trefjum og andoxunarefnum. 

31. júlí 2018 : Hampfræ + uppskrift af hampmjólk

Heil og sæl! Ég er að prófa mig mikið áfram með hampfræ og hampolíu þessa dagana en ég tek 1-2 matskeiðar af hampolíu á morgnana og drekk vatnsglas beint eftir á (bragðið er ekki það besta, hehe) Heilsueiginleikar hampfræja og hampolíunnar eru magnaðir en hampolían hefur m.a. mjög góð áhrif á húð og hægt er að nota hana sem áburð á húðina. Ég hef verið að kljást við slæmt exem frá því ég var barn og hampolían hefur hjálpað mér svo mikið að þið trúið því ekki en mér líður miklu betur í húðinni þegar ég tek hampolíu daglega. Það er ómega-3 fitusýrunum að þakka en hampolían er stútfull af ómega-3 og ómega-6 fitusýrum sem hafa góð áhrif á húð, hár og neglur ásamt því að stuðla að heilbrigðu hjarta- og æðakerfi. Hampfræin eru einnig talin vera bólgueyðandi. Hampfræ og hampolía hafa hins vegar fengið á sig slæmt orðspor vegna þess að hampur kemur frá plöntunni Cannabis Sativa en marijúana kemur einnig af sömu plöntu. Það er samt ekkert að óttast því hampur og marijúana eru tvö aðskyld fyrirbæri þó að þau komi af sömu plöntu en hampur er ekki vímuefni eins og marijúana. 

26. júlí 2018 : Bleikur chia grautur

Heil og sæl! Chia grautur er reglulegur liður í mataræði mínu og ég er alltaf að reyna að koma með nýjar hugmyndir af nýjum grautum. Mér hefur alltaf langað að gera bleikan graut og ég prófaði mig áfram með fersk hindber. Fyrst varð grauturinn hvítur, svo varð hann grár hjá mér en loksins kom bleiki liturinn! Ég setti líka örlítið af hampfræjum í grautinn sem er nýja uppáhalds fæðan mín en ég hafði ekki hugmynd um heilsueiginleika þeirra. Hampfræ er gríðarlega næringarrík og próteinrík en þau innihalda meira prótein en chia fræ. Hampfræ innihalda einnig ómega-3 fitusýrur og ómega-6 fitusýrur. Ég mæli klárlega með að setja örlítið af hampfræjum út á grautinn, smoothie-skálina, jógúrtið eða í booztið!

13. júlí 2018 : Þriggja laga hnetugott

Heil og sæl! Síðustu dagar hjá mér hafa verið frekar pakkaðir en ég náði loksins að finna mér tíma og leika mér smá í eldhúsinu en ég held að þetta sé flóknasta uppskriftin mín hingað til enda er hún þriggja laga! Hún er samt þess virði, ég lofa! Ég er búin að vera með hnetusmjör á heilanum undanfarna daga og vildi gera eitthvað gotterí helst úr hnetusmjöri og dökku súkkulaði. Mér datt í hug að gera einhvers konar þriggja laga heimagert "snickers" og var útkoman alveg hreint frábær! Fyrsta lagið er kremlag gert úr kasjúhnetum og kókosolíu ásamt smá hafrahveiti. Það var mjög gaman að prófa sig áfram með kasjúhnetum og á næstunni mun ég klárlega gera fleiri uppskriftir þar sem ég nota kasjúhnetur. Ég lagði þær í bleyti í nokkrar klst en þær verða svo rjómakenndar ef það er gert. Annað lagið er hnetusmjörslag gert úr hnetusmjöri og döðlum, það er svo gott kombó að ég get borðað það eintómt! Þriðja og síðasta lagið er gómsætt dökkt súkkulaði, því súkkulaði gerir einfaldlega allt betra. 

30. júní 2018 : Túrmerik: Allra meina bót

Heil og sæl! Ég er nýdottin á túrmerik lestina en áður fyrr vissi ég lítið sem ekkert um kryddið og heilsueiginleika þess. Ég hef verið að lesa mér til um túrmerik síðustu daga og vildi endilega deila með ykkur smá fróðleik. Ég deili einnig frískandi uppskrift af heitum túrmerik drykk sem er frábær til að byrja daginn sinn á! Túrmerik eða gullinrót á íslensku er krydd frá Asíu sem hefur verið notað í þúsundir ára en það var fyrst notað sem litur en ekki krydd. Heilsueiginleikar túrmeriks komu svo í ljós í gegnum aldirnar og það má segja að túrmerik sé allra meina bót en hún hefur einnig verið mikið notuð sem lækningajurt í austrænni læknisfræði.

22. júní 2018 : Sumarlegar orkukúlur

Heil og sæl! Nú er sólin loksins farin að láta sjá sig eitthvað í þessum mánuði og því fannst mér tilvalið að skella í orkukúlur í sumarlegum búningi. Ég geri orkukúlur reglulega heima því þær eru svo einfaldar að búa til og það er svo þægilegt að grípa í 1-2 kúlur ef manni langar í eitthvað hollt en sætt. Ég prófaði að nota örlítið af apríkósum í þetta sinn sem var skemmtileg tilbreyting en ég hef alltaf notað döðlur í orkukúlugerð. Í þessari uppskrift er hægt að nota einungis döðlur eða einungis apríkósur en ég vildi prófa að nota bæði, það fer bara eftir hvað maður er meira fyrir. Ég prófaði líka að nota sítrónu í orkukúlurnar til að gefa smá sumarfíling en henni má alveg sleppa ef maður vill, ég mæli þó með að prófa að setja örlítið af sítrónusafa því það passar svo vel saman við kókosinn! 

31. maí 2018 : Ristað kókossmjör

Heil og sæl! Jafnvel þó að það sé búið að rigna allan mánuðinn þá ætla ég ekki að láta það stoppa mig í sumaruppskriftunum mínum! Ég vinn mikið með kókos í eldhúsinu og rakst á skemmtilega hugmynd á netinu, kókossmjör! Kókossmjör er ekki það sama og kókosolía en kókosolía er búin til með því að pressa olíu úr kókosinum sjálfum og er tilvalin í eldamennskuna. Kókossmjör er búið til með því að blanda kókosinum saman og í því ferli losnar um olíurnar sem eru í kókosinum alveg eins og gerist með hnetusmjör! Kókosolía er því einungis olían úr kókosinum sjálfum en kókossmjör er bæði kókosinn og olían. Í þessari uppskrift ristaði ég kókosmjölið en það er alls ekki nauðsynlegt. Ef þú vilt mikið kókosbragð mæli ég ekki með að rista kókosinn því það breytir bragðinu örlítið. 

Síða 1 af 4