31. maí 2018 : Ristað kókossmjör

Heil og sæl! Jafnvel þó að það sé búið að rigna allan mánuðinn þá ætla ég ekki að láta það stoppa mig í sumaruppskriftunum mínum! Ég vinn mikið með kókos í eldhúsinu og rakst á skemmtilega hugmynd á netinu, kókossmjör! Kókossmjör er ekki það sama og kókosolía en kókosolía er búin til með því að pressa olíu úr kókosinum sjálfum og er tilvalin í eldamennskuna. Kókossmjör er búið til með því að blanda kókosinum saman og í því ferli losnar um olíurnar sem eru í kókosinum alveg eins og gerist með hnetusmjör! Kókosolía er því einungis olían úr kókosinum sjálfum en kókossmjör er bæði kókosinn og olían. Í þessari uppskrift ristaði ég kókosmjölið en það er alls ekki nauðsynlegt. Ef þú vilt mikið kókosbragð mæli ég ekki með að rista kókosinn því það breytir bragðinu örlítið. 

18. maí 2018 : Sumargranóla með kókos og þurrkuðum mangó

Heil og sæl! Ég er svo sannarlega komin í sumarskap og er búin að vera að leika mér í eldhúsinu með sumarleg hráefni eins og kókos og mangó ...  þá kviknaði sú hugmynd að gera sumargranóla! Sjálf er ég mikið fyrir granóla og geri reglulega mitt eigið en ég mæli sérstaklega með heimalöguðu súkkulaðigranóla. Granóla er æðislegt út á grautinn eða jógúrtið og svo þykir mér líka algjört nammi að borða það eitt og sér! Ég notaði meðal annars hafra og kókos ásamt fræblöndu frá Himneskri Hollustu sem var alveg tilvalin í granólagerð! Það var líka svo skemmtilegt að vinna með þurrkaða mangóbita og guli liturinn kemur manni klárlega í sumarskap! 

11. maí 2018 : Asta Eats: Coconut Bowls

Heil og sæl! Eftir krefjandi en skemmtilegar 15 vikur í skólanum er ég loksins komin í sumarfrí! Ég ákvað að verðlauna mig og kaupa mér eitt sem mér hefur langað í mjög lengi, kókoshnetuskál frá Coconut Bowls! Ég er búin að fylgja Coconut Bowls á Instagram í langan tíma og lét loksins verða að því og keypti skálar og skeiðar í stíl. Ég keypti mér 'The Coco Combo' sem inniheldur tvær kókoshnetuskálar, eina grófa og eina fína, og tvær kókoshnetuskeiðar. Það er hægt að kaupa gaffla í staðinn eða bæði skeiðar og gaffla. Ég notaði afsláttarkóðann ecofriendly sem gaf mér 10% afslátt og já, þau senda til Íslands!

30. apríl 2018 : Haframuffins

Heil og sæl! Ef þú ert komin með smá leið á klassíska hafragrautinum eins og ég þá er þetta uppskrift fyrir þig! Þessar ljúffengu haframuffins eru fullkomnar til að byrja daginn og það er jafnvel hægt að útbúa deigið kvöldið áður ef maður hefur lítinn tíma á morgnana eða ef maður vill sofa örlítið lengur. Þar sem að kanill er í algjöru uppáhaldi datt mér í hug að gera haframuffins með eplum því þau passa svo vel við kanilinn. Það er auðvitað hægt að skipta því út fyrir eitthvað annað hráefni t.d. banana og hnetusmjör eða jafnvel jarðaber og kókos svo það er um að gera að prófa sig áfram!

25. apríl 2018 : Súkkulaðihnetusmjör

Heil og sæl! Hnetusmjör er í miklu uppáhaldi hjá mér enda er bragðið frábært og heilsueiginleikar hnetusmjörsins eru margir. Flestar ef ekki allar hnetur innihalda holla og góða fitu, þ.e. einómettaða fitu (e. monounsaturated fat) sem lækkar magn LDL kólesterólsins, kallað "vonda kólesterólið“, og hækkar magn HDL kólesterólsins, kallað "góða kólesterólið, og stuðlar þannig að heilbrigðu hjarta- og æðakerfi. Hnetur innihalda einnig gott magn af próteini og trefjum. Þó að hnetur séu meinhollar er ekki mælt með að borða of mikið af þeim. Handfylli af hnetum á dag er tilvalið. Ég hef afskaplega gaman að því að búa til mitt eigið hnetusmjör en ég hef áður deilt uppskrift af möndlusmjöri og sérstöku jólahnetusmjöri gert úr valhnetum og pekanhnetum. Ég vildi prófa mig áfram í hnetusmjörsgerð og hugsaði með mér hvað ef ég prófa að gera súkkulaðihnetusmjör? Ég átti kasjúhnetur upp í skáp og kakó og það var ekki aftur snúið! Ég ákvað að nota kasjúhnetur því ég átti þær til en í raun er hægt að nota hvaða hnetur sem er, jarðhnetur, heslihnetur, valhnetur eða jafnvel möndlur. Þið verðið að prófa en súkkulaðihnetusmjörið er æðislegt á súrdeigsbrauð og með jarðaberjum!

21. apríl 2018 : Asta Eats: Le Pain Quotidien

Heil og sæl! Ég og kærastinn minn ákváðum að byrja sumarið með stæl og skelltum okkur í helgarferð til Parísar. Við skoðuðum að sjálfsögðu helstu minnismerki borgarinnar eins og Eiffelturninn, Notre Dam, Seine ána, Sigurbogann, Rauðu Mylluna, Sacré-Coeur o. fl. en við ætluðum svo sannarlega að borða góðan mat líka og það svo sannarlega gerðum við! Mér finnst góður matur vera svo stór partur af ferðalaginu sama hvert maður fer. Það vildi svo heppilega til að uppáhalds staðurinn minn er í París en hann heitir Le Pain Quotidien sem þýðir daglegt brauð og ég vildi aðeins segja ykkur frá honum. Staðurinn er ofboðslega notalegur og andrúmsloftið alveg hreint yndislegt. Þetta er hinn fullkomni morgunverðar eða brunch staður en það er að sjálfsögðu líka hægt að borða kvöldmat þarna en ég mæli frekar með morgunmatnum! Það er m.a. boðið upp á hafragraut, chiagraut, ristað brauð með alls konar lostæti og lífrænum sultum, crossaint, salat og heita rétti. Staðurinn er því miður ekki á Íslandi en er m.a. í Frakklandi, Bandaríkjunum, Belgíu, Englandi og Hollandi (ásamt öðrum löndum) þannig ef þið eigið leið þangað þá mæli ég eindregið með að kíkja á Le Pain Quotidien.

30. mars 2018 : Heimagerðar granóla stangir

Heil og sæl! Granóla stangirnar góðu ... hið fullkomna millimál! Hafið þið samt tekið eftir því hvað það getur verið mikill viðbættur sykur í granóla stöngum sem maður kaupir út í búð ... alveg mikill viðbættur sykur? Ég mæli þess vegna með að prófa að gera ykkar eigin stangir og segja bless við viðbætta sykurinn! Ég geri reglulega mitt eigið granóla og tek það með mér í nesti til að narta í en í þetta sinn vildi ég prófa að gera mínar eigin granóla stangir og sleppa því að kaupa þær í búðinni. Ég rakst á þessa frábæru uppskrift á uppáhalds Youtube-rásinni minni, The Domestic Geek. Í myndbandinu neðst í færslunni deilir Domestic Geek þremur mismunandi uppskriftum af gómsætum granóla stöngum og það er ekkert mál að búa þær til! Þar sem ég er mikill kanil og valhnetu aðdáandi þá gerði ég uppskrift númer tvö. Án efa bestu granóla stangir sem að ég hef smakkað!

16. mars 2018 : Kókosbitar

Heil og sæl! Það er búið að vera alveg pakkað hjá mér þessa vikuna, vinnan, próf, fyrirlestrar, fundir og hópverkefni! Núna þegar það er aðeins farið að róast hjá mér nýtti ég tækifærið og lék mér aðeins í eldhúsinu. Ég dýrka kókos og ég dýrka dökkt súkkulaði svo það er engin furða að kókosbitarnir frá Himneskri Hollustu er í algjöru uppáhaldi. Ég vildi hins vegar prófa að búa til mína eigin útgáfu og viti menn, hún kom æðislega út! Kókos og súkkulaði eru sálufélagar .. ég er að segja ykkur það! Það er algjörlega hægt að leika sér með þessa uppskrift, t.d. búa til kúlur eða jafnvel stangir úr kókosblöndunni, leyfa þeim að mótast inn í ísskáp og dýfa þeim svo í gómsætt súkkulaði - þá kemur meira súkkulaðibragð sem ég hef ekkert á móti! Passið bara að eiga nóg af súkkulaði til þess að bræða! Ég legg kókosblönduna í brauðform og helli súkkulaði yfir og sker svo í marga bita en kókosbragðið er þá í aðalhlutverki frekar en súkkulaðið. Ég hvet ykkur til að prófa, sama hvaða aðferð þið notið! 

7. mars 2018 : Heimalagað súkkulaðigranóla

Heil og sæl! Það er komið svolítið síðan að ég gerði mér heimalagað granóla og mér var farið að langa í eitthvað crunchy og sætt en ekki óhollt sem að ég get nartað í til að slá á sykurþörfina. Mér fannst því tilvalið að skella í súkkulaðigranóla og nota nýju sætuna frá Good Good Brand, Sweet Like Syrup. Sætan er síróp með hlynsírópsbragði og mér finnst hún fullkomin í bakstur! Sírópið er trefjaríkt og hentar vel fyrir þá sem vilja neyta minna af sykri. Ég nota bæði sírópið og fljótandi kókosolíu og heilan helling af höfrum, fræjum og kókosmjöli svo rista ég granólablönduna í ofninum - það er ekkert mál! Ég sker svo niður döðlur og strái yfir en ég nota döðlur mikið, sérstaklega í bakstur fyrir náttúrulega sætu. Mér finnst alveg frábært að narta í þetta gómsæta súkkulaðigranóla eitt og sér en það er hægt að setja það út á grautinn, jógúrtið eða smoothie-skálina. Þessi uppskrift er trefjarík, crunchy og gómsæt, þú verður að prófa! 

28. febrúar 2018 : Asta Eats: Nesti

Heil og sæl! Ég er mikið fyrir að taka með mér nesti hvert sem ég fer, hvort sem það er í skólann, í vinnuna eða jafnvel í ferðalagið. Ástæðan fyrir því að ég tek með mér nesti er fyrst og fremst því það sparar mér pening og kemur í veg fyrir að ég dett í óhollustuna eða að ég fari í næstu búð og kaupi mér eitthvað dýrt að borða. Nýlega fjárfesti ég í góðum nestisboxum og sérstökum nestispoka frá Whole Foods sem ég nota mjög mikið en pokinn heldur nestinu heitu eða köldu. Á hliðinni er svo hólf fyrir vatnsbrúsa en ég tek alltaf með mér vatnsbrúsa annars gleymi ég að drekka vatn yfir daginn. Í þessari færslu ætla ég að deila með ykkur hvað ég tek með mér í nesti þá sérstaklega í millimál ásamt því að deila nokkrum ráðum til að auðvelda nestisgerð því það þarf ekki að vera erfitt að búa til nesti daglega!

Síða 1 af 4