16. mars 2018 : Kókosbitar

Heil og sæl! Það er búið að vera alveg pakkað hjá mér þessa vikuna, vinnan, próf, fyrirlestrar, fundir og hópverkefni! Núna þegar það er aðeins farið að róast hjá mér nýtti ég tækifærið og lék mér aðeins í eldhúsinu. Ég dýrka kókos og ég dýrka dökkt súkkulaði svo það er engin furða að kókosbitarnir frá Himneskri Hollustu er í algjöru uppáhaldi. Ég vildi hins vegar prófa að búa til mína eigin útgáfu og viti menn, hún kom æðislega út! Kókos og súkkulaði eru sálufélagar .. ég er að segja ykkur það! Það er algjörlega hægt að leika sér með þessa uppskrift, t.d. búa til kúlur eða jafnvel stangir úr kókosblöndunni, leyfa þeim að mótast inn í ísskáp og dýfa þeim svo í gómsætt súkkulaði - þá kemur meira súkkulaðibragð sem ég hef ekkert á móti! Passið bara að eiga nóg af súkkulaði til þess að bræða! Ég legg kókosblönduna í brauðform og helli súkkulaði yfir og sker svo í marga bita en kókosbragðið er þá í aðalhlutverki frekar en súkkulaðið. Ég hvet ykkur til að prófa, sama hvaða aðferð þið notið! 

7. mars 2018 : Heimalagað súkkulaðigranóla

Heil og sæl! Það er komið svolítið síðan að ég gerði mér heimalagað granóla og mér var farið að langa í eitthvað crunchy og sætt en ekki óhollt sem að ég get nartað í til að slá á sykurþörfina. Mér fannst því tilvalið að skella í súkkulaðigranóla og nota nýju sætuna frá Good Good Brand, Sweet Like Syrup. Sætan er síróp með hlynsírópsbragði og mér finnst hún fullkomin í bakstur! Sírópið er trefjaríkt og hentar vel fyrir þá sem vilja neyta minna af sykri. Ég nota bæði sírópið og fljótandi kókosolíu og heilan helling af höfrum, fræjum og kókosmjöli svo rista ég granólablönduna í ofninum - það er ekkert mál! Ég sker svo niður döðlur og strái yfir en ég nota döðlur mikið, sérstaklega í bakstur fyrir náttúrulega sætu. Mér finnst alveg frábært að narta í þetta gómsæta súkkulaðigranóla eitt og sér en það er hægt að setja það út á grautinn, jógúrtið eða smoothie-skálina. Þessi uppskrift er trefjarík, crunchy og gómsæt, þú verður að prófa! 

20. febrúar 2018 : Sesamkúlur

Heil og sæl! Ég hef afskaplega gaman að prófa mig áfram með nýjum hráefnum og að þessu sinni eru það sesamfræ! Í þessari uppskrift prófaði ég að nota bæði sesamfræ og sesamsmjör eða tahini eins og það er einnig kallað. Ég hafði heyrt og lesið afskaplega góða hluti um tahini og las m.a. greinina frá Ásdísi Rögnu grasalækni hér á H Magasín en þar segir hún: "Tahini er sneisafullt af næringarefnum og ef borið saman við hnetusmjör þá inniheldur það töluvert meiri trefjar, minna magn kolvetna og minna af mettaðri fitu. Tahini inniheldur m.a. fullt af B vítamínum, omega 3 fitusýrur, ríkulegt magn af kalki, magnesíum, sínki, og fólínsýru." Mér datt í hug að gera orkukúlur því sögusagnir segja að ef maður blandar döðlum og tahini saman þá fær maður saltkaramellubragð! Hljómar vel, ekki satt? Þetta tvíeyki verður þú að prófa en ég var mjög sátt með útkomuna!

31. janúar 2018 : Hummus hafrakex

Heil og sæl! Ég leita mikið að hveitilausum uppskriftum á netinu en finnst líka gaman að prófa mig sjálf áfram í hveitilausum bakstri og eldamennsku en í vikunni tókst mér einmitt að gera gómsæta brownie og ég notaði ekkert hveiti! Ég finn alltaf skemmtilegar uppskriftir inn á Youtube og verð að segja ykkur frá einni Youtube-rás sem að ég gjörsamlega dýrka en hún heitir Mind Over Munch og það er frábær kona sem að heldur uppi rásinni. Hún deilir hollum, auðveldum og fjölbreyttum uppskriftum og gerir líka kennslumyndbönd en hún heldur einnig uppi heimasíðu sem heitir það sama. Ég rakst á skemmtilega uppskrift frá henni sem að ég prófaði sjálf og vildi endilega deila henni með ykkur en maður þarf bara tvö hráefni: hummus og hafrahveiti! 

29. janúar 2018 : Hrákökubrownie með heimalöguðu súkkulaðikremi

Heil og sæl! Frá því að ég man eftir mér hef ég verið algjör ofnæmispési og ég mátti aldrei borða neinar kökur í afmælum því það var alltaf egg eða hveiti í þeim eða bæði og þá fékk ég ofnæmi sem lýsti sér aðallega í skelfilegum útbrotum út um allan líkamann... ég vildi forðast það þannig ég borðaði sjaldan kökur. Á undanförnum árum hef ég mikið verið að prófa mig áfram í hveiti- og eggjalausum kökum og ég ætla að deila með ykkur uppskrift af gómsætri hrákökubrownie með heimalöguðu súkkulaðikremi! Nei, sko ég er ekki að grínast þegar að ég segi að þetta er án efa besta kaka sem að ég hef smakkað en hún er hveitilaus, mjólkurlaus, án viðbætts sykurs og eggjalaus! Ég hef rekist á margar mismunandi uppskriftir af hrákökubrownie á netinu en ég vildi búa til uppskrift úr auðveldum, aðgengilegum og fáum hráefnum sem flestir eiga til heima hjá sér. 

29. janúar 2018 : Sykurlaus áskorun: Slepptu sykri í 14 daga

Hráfæðiskokkurinn Júlía Magnúsdóttir elskar fátt meira en að vera í eldhúsinu og hefur hjálpað einstaklingum að öðlast sátt í eigin skinni með heilbirgðum lífstíl síðustu ár. Hún starfar sem heilsumarkþjálfi og næringar- og lífstílsráðgjafi hjá fyrirtæki sínu Lifðu til fulls. 

26. desember 2017 : Guacamole

Heil og sæl! Þeir sem þekkja mig vita að ég er hinn mesti avocado-aðdáandi en ég reyni að troða avocado í gjörsamlega allt sem að ég borða og ég mæli með að þú gerir það líka. Þú getur til dæmis prófað þessar avocado kókoskúlur

Avocado, eða lárpera á íslensku, er næringarríkur ávöxtur og inniheldur meiri fitu en aðrir ávextir en ekki láta það hræða þig því þessi fita er holl og góð fyrir þig. Avocado inniheldur ekkert kólesteról en hefur þó áhrif á kólesterólmagn líkamans. Ávöxturinn er stútfullur af einómettuðum fitusýrum sem lækka magn LDL kólesterólsins, kallað "vonda kólesterólið“, og hækkar magn HDL kólesterólsins, kallað "góða kólesterólið, og stuðlar þannig að heilbrigðu hjarta- og æðakerfi. Þar að auki inniheldur avocado mikið magn af trefjum ásamt steinefnunum kalíum og magnesíum sem bæði eru þekkt fyrir að halda blóðþrýstingnum í jafnvægi. Uppskriftin sem að ég deili með ykkur í dag geri ég oft, oft, oft á mínu heimili en það er heimalagað guacamole eða lárperumauk. Ég mæli sérstaklega með að kaupa avocado í Costco en þeir eru hrikalega góðir þar!

Hafra-klattar

18. desember 2017 : Ásdís Grasa: Hollari jólabakstur

Hver vill ekki njóta hollara sætinda um jólin? Ég er algjör sælkeri fram í fingurgóma og veit fátt betra en gott súkkulaði og reyni gjarnan að hollustuvæða uppskriftir því mig langar til að geta notið þess að fá mér sætindi reglulega á góðum degi án þess að það komi niður á heilsunni. Ég vanda því valið og nota alltaf gott hráefni sem mér líður vel af en kemur ekki niður á bragði né gæðum sætindanna. Mig langar því að deila með ykkur tveimur uppskriftum sem ég nota töluvert en þessar smákökur geri ég fyrir hver einustu jól og þær rjúka út á mínu heimili og ég þarf stundum að fela þær svo klárist ekki strax. Bollakökuna er svo hægt að nota sem smartan eftirrétt eða með kaffinu á aðventunni til að gera sér glaðan dag enda tekur það ekki nema 1 mínutu að græja hana! 

14. desember 2017 : Möndlumjólk

Heil og sæl! Eftir að ég uppgötvaði möndlumjólk var ekki aftur snúið í kúamjólkina enda fór hún ekkert sérlega vel í mig. Ég nota möndlumjólk mikið í grauta, bæði heita og kalda, í bakstur og jafnvel út í smoothie. Möndlumjólk er næringarrík og inniheldur holla og góða fitu, þ.e. einómettaðar fitusýrur (e. monounsaturated fats) sem stuðla að heilbrigðu hjarta. Auk þess inniheldur möndlumjólkin lítið magn af kaloríum og þar sem að möndlumjólk er ekki dýraafurð inniheldur hún ekkert kólesteról en það sama er ekki hægt að segja um kúamjólkina. Kúamjólkin er þó próteinríkari heldur en möndlumjólkin því mæli ég ekki með að nota möndlumjólk sem próteingjafa. Þó svo að möndlurnar sjálfar séu próteinríkar er möndlumjólkin það ekki. Möndlumjólk fæst í helstu verslunum nú til dags en það er ekkert mál að búa til sína eigin! 

30. nóvember 2017 : Jólahnetusmjör

Heil og sæl! Jólauppskriftirnar halda áfram og að þessu sinni deili ég með ykkur heimalöguðu jólahnetusmjöri! Ég nota aðallega valhnetur í hnetusmjörið og örlítið af pekanhnetum. Svo rista ég hneturnar upp úr hlynsírópi og jólakryddblöndu, þ.e. kanill, múskat og engifer. Ég er afskaplega hrifin af valhnetum enda eru þær algjör ofurfæða. Valhnetur innihalda prótein, trefjar og gott magn af omega 3 fitusýrum. Þær eru mettandi og eru því góður kostur fyrir þá sem eru til dæmis að létta sig. Valhnetur eru einnig ríkar af andoxunarefnum og halda því hjartanu í góðri heilsu en þær draga úr hættunni á að fá hjartasjúkdóm. Rannsóknir hafa einnig sýnt fram á að daglega neysla af valhnetum hefur jákvæð áhrif á heilastarfsemina. Ég vill líka deila með ykkur að það er algjört nammi að rista valhnetur á pönnu eða í ofninum en það losar aðeins um bitra bragðið sem er af valhnetum en passið ykkur, valhnetur brenna hratt!  Ég mæli svo sannarlega með að koma valhnetum inn í daglega fæðu, lúka á dag kemur skapinu í lag!

Síða 1 af 8