Heilsusamlegt mataræði og líkamleg líðan: Þrjú mikilvæg atriði að mínu mati

Indíana Nanna

8. apríl 2018

  • 6176642688_IMG_0405_1523223981332

Halló, halló .. Indíana hér! Ef þú hefur eitthvað fylgst með mér á Instagram þá veistu að ég elska, elska mat. Þegar ég hugsa um það þá hefur matur alltaf verið risa partur af mér og ég hef alltaf pælt mikið í mat einhvernveginn þó svo að mataræðið mitt hafi lengst af verið langt frá því að vera gott.

Þegar ég var yngri borðaði ég nánast ekkert nema grjónagraut og pizzu. Ég var alltaf mjög dugleg að baka allskonar góðgæti eins og pizzu, pönnukökur, kanilsnúða og bara nefndu það. Þegar ég var t.d. í 10. bekk kom ég oft heim úr skólanum, bakaði mér stafla af pönnukökum, borðaði hann allan sjálf og fór svo á handboltaæfingu - haha! 

Ég byrjaði fyrst að fatta að ég þyrfti eitthvað að breyta mataræðinu mínu þegar ég var á sirka öðru eða þriðja ári í menntaskóla. Þá byrjaði ég að borða hafragraut, tók með mér ávexti í skólann og fór annaðhvort á salatbarinn eða Serrano í hádeginu sem dæmi. Ég sá fljótlega hversu góð áhrif það hafði á mig að breyta aðeins til.

Nú í dag hef ég prufað mig áfram t.d. í plant based/vegan mataræði, grænmetisfæði og á tímabili hugsaði ég mikið um prótein og tók t.d. alltaf whey prótein eftir æfingu og casein prótein á kvöldin fyrir svefn o.s.frv. Þannig ég hef farið um víðan völl, prufað margt og svolítið fundið út úr því hvað hentar mér best en eftirfarandi setning lýsir mataræðinu sem mér líður best af mjög vel: 

Eat food, not too much, mostly plants.

Mér finnst þessi setning súmmera allt svo ótrúlega vel upp - allavegana frá mínum dyrum séð. Það er ekki verið að segja þér að ekki borða hitt og þetta heldur er átt við:

  • Að borða (alvöru) mat - s.s. ekki unnin mat heldur allt sem hefur engar innihaldslýsingar eins og t.d. fisk, kartöflur, hnetur, fræ, ávexti, grænmeti o.fl.
  • Ekki borða of mikið af honum.
  • Borðaðu meira eða frekar úr plönturíkinu en dýraríkinu 

Þessi setning er frá Michael Pollan en ég heyrði hana í heimildarmynd á Netflix sem heitir In Defense Of Food sem ég mæli mikið með að þú kíkir á.

6176642688_IMG_0403_1523223981335

Eftirfarandi þrjú atriði eru risa breytur fyrir mig þegar kemur að mataræði og hafa mikil áhrif á mína líðan og líkamlega heilsu. Ef þig vantar einhverskonar útgangspunkta þegar kemur að mataræði þá myndi ég ekki hika við að renna yfir þessa þrjá og hafa þá til hliðsjónar.

1) Vatn - reglulega yfir daginn.

Að hafa brúsa eða flösku við höndina og drekka sopa og sopa jafnt og þétt yfir daginn er regla númer 1, 2 og 3! Þetta er 100% það sem hefur skipt mestu máli hjá mér þegar ég byrjaði fyrst að taka eitthvað til í mataræðinu hjá mér og breyta til/prufa mig áfram. Þetta hefur mikla áhrif á þyngdarstjórnun, matarlyst, hægðir, hausverk og svo margt fleira.

Að vera þyrst/ur þýðir að líkamanum vantar vatn - þannig að þorstatilfinning er eitthvað sem við ættum að reyna að koma í veg fyrir. Frekar ættum við að drekka jafnt og þétt yfir daginn, frekar en að þamba t.d. 1 líter tvisvar á dag. Oft getum við líka ekki greint á milli þess hvort við séum svöng eða þyrst og leitum kannski í eitthvað óþarfa möns í staðinn fyrir að fá okkur vatnsglas sem er kannski það sem líkaminn er að biðja um frekar.

2) Grænmeti - og mikið af því.

Þegar ég var yngri þá án gríns borðaði ég bara ekki grænmeti. Mér bara fannst það ekki gott og þegar maður er krakki borðar maður bara það sem manni finnst gott. En í dag reyni ég að borða eins mikið af grænmeti og ég mögulega get. Mér líður persónulega mjög vel af grænmetisfæði og ég elska allskonar mismunandi grænmetisrétti með mismunandi áferð og bragði en það er hægt að búa til svo marga geggjaða rétti úr allskonar grænmeti. Síðan bjóða nánast allir staðir út í bæ núna upp á allskonar ljúffenga grænmetisrétti þannig það er lítið mál að finna sér eitthvað hollt og (mjög) gott.

Ég reyni að setja fullt af grænu í smoothie t.d. á morgnana, síðan fæ ég mér oftast eitthvað eins og salat, grænmetisrétt eða álíka í hádegismat og í kvöldmat er það oftast fiskur með grænmeti eða einhver góður grænmetisréttur.

Grænmeti er stútfullt af trefjum (sjá punkt nr. 3), vítamínum og steinefnum sem við þurfum á að halda. Síðan er það létt í magann og töluvert ódýrara en flestallar dýraafurðir.

6176642688_IMG_0405_1523223981332

3) Hugaðu að meltingunni - vatn, trefjar og góðgerlar.

Á mínum yngri árum - þegar mataræðið var ekki í lagi - var ég endalaust með magaverki. Ég lá stundum á gólfinu í keng af því að mér var svo illt í maganum. Ég hugsaði alltaf bara ,,já æj ég er bara svona magavesenispési'' og hélt bara að það væri eitthvað eðlilegt.

Ef ég fæ magaverki núna í dag þá veit ég oftast nákvæmlega af hverju og get þá rakið það til einhvers sem ég var að borða, t.d. ef ég borða of mikinn sykur eða of mikið brauð, eða þá ef ég hef verið léleg að drekka vatn.

Í dag passa ég mikið upp á vatnið, trefjainntöku (ávextir, grænmeti, gróft kornmeti o.fl.) og síðan tek ég mismunandi góðgerla nánast daglega. Ég tek t.d. Acidophilus 4x6, Probiotic Defence og Probiotic 25 Billion frá NOW Foods og reyni helst að taka þá á morgnana á fastandi maga með nóg af vatni en annars er ég ekkert að stressa mig ef ég næ ekki að taka þá á fastandi maga og tek þá þá bara um daginn þegar ég man eftir þeim. Betra er að taka þá en ekki.

Ef við erum léleg að drekka vatn getur það líka valdið hægðatregðu. Sérstaklega ef við erum að borða mikið af trefjum (t.d. hafragraut eða psyllium husk) og erum síðan ekkert að drekka neitt vatn með þeim.

NOW gerlar Indíana

Vonandi hafðir þú gaman af því að skauta yfir þetta hjá mér en að lokum langar mig til að segja: Njóttu þess að prufa þig áfram í mataræðinu og finna út úr því hvað það er sem hentar þér best!

Indíana Nanna