Chiasulta í hátíðarbúning

12. desember 2018

Heil og sæl! Jólafríið nálgast og ég hlakka svo til! Ég hef áður deilt með ykkur uppskrift af chia sultu en að þessu sinni ætla ég að vera aðeins hefðbundnari og nota pottinn en ekki matvinnsluvélina! Ég vil taka það fram að þessi uppskrift er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu. Ég er algjörlega komin í jólagírinn og vildi því gera chiasultu í jólabúning! Ég nota trönuber í grunninn en þau eru afskaplega heilsusamleg. Trönuber eru rík af andoxunarefnum, trefjum og C-vítamíni. Svo að sjálfsögðu geta trönuber komið í veg fyrir þvagfærasýkingu en þau eru hvað frægust fyrir það. Flestir borða hins vegar ekki fersk trönuber sem er skiljanlegt því bragðið af þeim er biturt en þegar maður hitar trönuber þá losnar um sætuna í þeim. Því eru trönuber upplögð í sultugerðina! Ég prófaði fyrst að nota sítrónu í sultuna til að gefa henni smá sýru en það kom alls ekki vel út. Ég prófaði svo appelsínu og sultan varð fullkomin! Ég nota líka kanil sem er lang uppáhalds kryddið mitt og prófaði mig áfram með döðlusykurinn frá Himneskri Hollustu sem er alveg frábær í baksturinn. Þessi sulta kemur þér klárlega í hátíðarskapið!

Innihald:

200-300 grömm af trönuberjum (ég keypti þau fersk en frysti þau svo og setti þau frosin í pottinn)

1/2 dl vatn

Dass af kanil frá Himneskri Hollustu 

2 msk chiafræ frá Himneskri Hollustu

3 msk döðlusykur frá Himneskri Hollustu

Appelsínusafi úr 1/4 af appelsínu + appelsínubörkur (það þarf alls ekki mikið af appelsínu)

Jolachiasulta

Jolachiasultamauk

Aðferð: 

Setjið trönuberin í pott ásamt 1/2 dl af vatni og leyfið því að malla saman í sirka 10 mínútur. Mér þykir afskaplega gott að setja dass af kanil út á í byrjun og leyfa berunum að malla í kanil. Svo set ég meira af kanil aftur undir lokin. Stappið berin niður í mauk eftir 10 mínútur og lækkið hitann. 

Ég er með spanhellu og hæsta stig er 9 hjá mér. Ég hitaði berin á 6. stigi og lækkaði svo hitann niður í 4. stig. Þegar þið eruð búin að stappa niður berin bætið við appelsínusafa og börki, döðlusykrinum og chia fræjunum. Hrærið vel saman og bætið kanil út á ef þið viljið.

Þegar búið er að hræra öllu vel saman, leyfið þá sultunni að kólna aðeins en verið dugleg að smakka hana til. Bætið við hunangi, hlynsírópi eða döðlusykri ef sultan er of súr. 

Þegar þið eruð sátt við sultuna, setjið hana í krukku. Krukkan sem ég notaði rúmaði u.þ.b. 230 grömm. Geymið inn í ísskáp í allt að 10-14 daga. Passið að loka krukkunni vel og ekki fara með skítuga skeið ofan í sultuna. 

Þessi sulta er í algjöru uppáhaldi hjá mér og ég borða vanalega ekki sultur. Hún er æðisleg á kexið, með ostum eða jafnvel sem meðlæti með hátíðarmatnum! Smyrjið henni á brauð, setjið hana út á jógúrtið eða grautinn. Hún passar á allt! 

 

 Njótið! 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram

 

Þangað til næst. Hátíðarkveðjur!

Heimild um trönuber: Well and Good 

Höfundur: Asta Eats