Ebba Guðný: Ítalskt sítrónupasta

13. mars 2018

Himneskur ítalskur spaghettíréttur sem er afar einfaldur, fljótlegur og sérlega ljúffengur. Hann sannar hið marg kveðna að minna er oftast svo miklu, miklu... meira.

Capture2

Ítalskt sítrónupasta

300 g spelt spaghettí  frá Himnesk Hollusta 

2 msk pastavatn (taka upp úr pottinum)  – má sleppa 

1 lífræn sítróna, safi og hýði (ef þið viljið enn meira sítrónubragð bætið þið við meiri sítrónusafa/berki í lokin) 

1 heill parmesanostur (má vera meira) 

1 dl kaldpressuð ólífuolía (má vera meira) 

Himalaya- eða sjávarsalt og pipar eftir smekk 

2 lúkur fersk basilíka 

2 lúkur klettasalat (ég kaupi alltaf íslenskt) – má sleppa

Hitið vatn í nokkuð stórum potti. Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pottinum (yfirleitt í um 8-10 mínútur). Raspið börkinn af sítrónunni í sæmilega stóra salatskál (en gætið þess að raspa ekki of mikið af sítrónunni – þetta hvíta er rammt). Skerið sítrónuna í tvennt og kreistið safann úr henni í sömu skál. Bætið við rifnum parmesanosti (ég ríf hann á rifjárni), ólífuolíunni og salti og pipar.

Þegar pastað er soðið, látið leka vel af því í sigti og skellið því svo í skálina og blandið öllu vel saman. Bætið basilíkunni og klettasalatinu (ég ríf allt fyrst) við í lokin.

*Ég mæli með lífrænni sítrónu þegar á að nota börkinn af henni. Ef sítrónurnar eru spreyjaðar situr eitrið í berkinum.

Höfundur: Ebba Guðný