Einfaldur pastaréttur á 15 mínútum

22. júlí 2019

Heil og sæl! Stundum langar mig bara í eitthvað fljótlegt, auðvelt og mettandi í mallann og ég nenni ekki að hafa mikið fyrir því. Hvað gerir maður þá? Svarið er: pasta! Í samstarfi við Himneska Hollustu og Bunalun Organic ætla ég að deila með ykkur ljúffengum og einföldum pastarétt sem tekur ekki nema 15 mínútur! Í þessa uppskrift nota ég m.a. nýrnabaunir en ég bæti þeim oft út í chilli-rétti, pasta eða út á bakaða sæta kartöflu. Nýrnabaunir eru góð fæða til að bæta við mataræðið sitt en þær eru prótein- og trefjaríkar og innihalda litla fitu. Þegar ég geri þennan pastarétt þá bý ég til frekar mikið í einu til þess að eiga daginn eftir í hádegismat. 

Innihald 

  • 300 grömm af penne frá Himneskri Hollustu (spelt eða heilhveiti)
  • 1-2 dósir tómatar með kryddjurtum frá Bunalun Organic (líka hægt að nota tómata án kryddjurta)
  • 1 dós nýrnabaunir frá Bunalun Organic (vatnið sigtað frá og baunir skolaðar undir köldu kranavatni)

Pastarettur15min

Aðferð

Byrjið á því að sjóða penne skv. leiðbeiningum á pakka. Þegar penne er tilbúið skal næst hella vatninu frá og setjið penne aftur í pottinn. Það sem ég geri er að setja sigti í vaskinn, hella öllum pottinum ofan í sigtið og þannig sigtast vatnið frá og svo helli ég penne aftur í sama pott. Það er óþarfa að skipta um pott eða þrífa hann. 

Bætið þá næst við einni-tveimur dósum af tómötum og einni dós af nýrnabaunum. Hrærið öllu saman og gott er að setja smá þurrkað chilli út á ef maður vill annars kryddar maður bara eftir smekk hvort sem það er salt, pipar eða jafnvel oregano, þurrkað basil eða hvítlaukskrydd. Hægt er að borða pastaréttinn heitan eða kaldan en hann er frábær daginn eftir í hádegismat og dásamlegur með smá salati! Ég mæli líka með að skera smá döðlur niður og bæta út á ef þið viljið smá sætu ... ég veit að það hljómar undarlega en það virkar! Berið fram með ferskri basil og njótið! 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram en ég er undir nafninu astaeats.

Prófaðir þú þessa uppskrift? Ef svo er þá máttu endilega segja mér hvernig tókst til!

Þangað til næst, verið heil og sæl!

 Höfundur: Asta Eats