Fylltar súkkulaðidöðlur

11. janúar 2019

Heil, sæl og gleðilegt nýtt ár! Ég ætla að byrja nýja árið á léttu nótunum og deila með ykkur einfaldri en ljúffengri uppskrift í samstarfi við Himneska Hollustu. Þessar fylltu súkkulaðidöðlur er gott að eiga inn í frysti þegar sykurpúkinn fer á stjá! Þær eru fylltar með gómsætu heimalöguðu möndlusmjöri og svo notaði ég líka hnetusmjör. Ég bjó til 20 fylltar döðlur og gerði 10 döðlur með hnetusmjöri og 10 döðlur með möndlusmjöri. Daðlan er fastur liður í mataræði mínu en ég passa mig að borða döðlur í hófi því þær innihalda talsverðan ávaxtasykur sem er ekki æskilegur í miklu magni. Ég verð þó að taka það fram að daðlan er frábær náttúruleg sæta og er æskilegri en hvíti sykurinn til dæmis! Döðlur eru líka meinhollar og næringaríkar þrátt fyrir sykurmagn sitt en þær eru m.a. ríkar af trefjum og eru góðar fyrir meltinguna. 

Innihald:

  • 20 döðlur frá Himneskri Hollustu
  • 4-5 tsk af grófu hnetusmjöri frá Himneskri Hollustu eða smjör að eigin vali
  • Dökkt súkkulaði eða heimalagað súkkulaði* 

 Fylltardodlur1

Fylltardodlur2

Aðferð:
Byrjið á því að skera lítinn skurð í döðlurnar, frá toppi til táar og setjið 1/4 tsk af hnetusmjöri (eða eftir smekk) inn í döðlurnar. Ekki skera döðlurnar í sundur, búið heldur til lítið pláss í döðlunni til að koma hnetusmjörinu fyrir. 

Þegar búið er að fylla allar döðlurnar er gott að setja þær inn í frysti í 10 mínútur bara á meðan súkkulaðið er brætt niður eða búið til frá grunni. 

 *Heimalagað súkkulaði:

2 msk af kókosolíu frá Himneskri Hollustu (fljótandi og volg)

2 msk af kakó frá Himneskri Hollustu

2 msk af agave síróp (eða hunangi) frá Himneskri Hollustu

Setjið kókosolíuna í pott eða örbylgjuna og bræðið. Bætið kakó og sætu við og hrærið vel saman.

Þegar súkkulaðið er tilbúið skal næst þekja döðlurnar og leyfa súkkulaðinu að harðna inn í frysti í 10 mínútur. Það er sniðugt að þekja döðlurnar með súkkulaðinu tvisvar sinnum ef súkkulaðið er búið til frá grunni. Geymið inn í frysti og njótið þegar sykurþörfin lætur í sér heyra! 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram 

Þangað til næst, verið heil og sæl! 

Höfundur: Asta Eats