Graskersfræsmjör

28. júní 2019

Heil og sæl! Í samstarfi við Himneska Hollustu ætla ég að deila með ykkur hvernig hægt er að búa til smjör úr graskersfræjum! Þetta 'smjör' er upplagt fyrir þá sem þola illa hnetur eða möndlur og er einnig ketóvænt, veganvænt og paleovænt! Graskersfræsmjör er barasta fyrir alla! Graskersfræin eru einmitt frábær fæða til að bæta við mataræðið sitt en þau eru mjög próteinrík, járnrík og innihalda gott magn af magnesíum. Fyrir þessa uppskrift þá þarf mjög góðan blandara eða góða matvinnsluvél en graskersfræin geta verið smá "þrjósk" að breytast í smjör. Fyrir áhugasama þá hef ég áður deilt uppskrift af kasjúhnetusmjöri og möndlusmjöri sem ég mæli eindregið með að prófa líka!

Innihald:

  • 200-400 grömm af graskersfræjum frá Himneskri Hollustu, þ.e. 1-2 pokar (fer eftir hversu mikið smjör þú vilt búa til) 
  • Salt eftir smekk

Gsmjor

Aðferð

Byrjið á því að setja graskersfræin á bökunarplötu og stráið smá salti yfir. 1 poki (200 gr) af graskersfræjum býr til smjör sem passar í 250 ml krukku. 

Næst skal rista graskersfræin í 10-15 mínútur á 150°C. Leyfið þeim því næst að kólna í nokkrar mínútur og setjið fræin svo í matvinnsluvél. 

Blandið graskersfræjunum saman þar til þið fáið smjör og verið þolimóð! Munið að stoppa reglulega og skrapa meðfram hliðunum til að auðvelda blöndun. Geymið í lokuðu íláti (ég nota glerkrukku) inn í skáp á dimmum stað. Það er ekki nauðsynlegt að geyma smjörið inn í kæli. Neytið innan 4-6 vikna. Setjið út í smoothie, út á grautinn, borðið með ávöxtum, grænmeti eða smyrjið á maískökur/rískökur eða ristað brauð.

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram en ég er undir nafninu astaeats. 

Prófaðir þú þessa uppskrift? Ef svo er þá máttu endilega segja mér hvernig tókst til!

Þangað til næst, verið heil og sæl!


Gsmjorkasjumondlu

 

Höfundur: Asta Eats