RVKfit: Hveitilausar pizzur

12. febrúar 2017

Hvítt hveiti hefur gjarnan verið talið óhollara en annars konar kornmeti. Margir finna til uppþembu og vanlíðan við neyslu hveitis og hafa sumir því valið að sleppa hvítu hveiti algjörlega úr fæðu sinni. 
Sjálf er ég ekkert ýkja hrifin af hveiti og reyni því að sneiða hjá því eins og ég mögulega get. Fyrir pizza aðdáanda númer eitt er því erfiðasti parturinn að sleppa pizzum en með heimildarleit og tilraunaeldhúsi tókst mér að finna út að hveitilausar pizzur eru alls ekki verri, eiginlega bara betri, ef eitthvað er.   

Hér að neðan eru uppskriftir af tveimur mismunandi gerðum af hveitilausum pizzum. Spínatpizzan er í algjöru uppáhaldi hjá mér þessa dagana en kínóa pizzan er ekki síðri. Best þykir mér að mauka tómata sjálf og gera þannig mína eigin pizzasósu. 

Spínatpizza

2 lúkur spínat
1 egg
100 g ostur
Hvítlauksduft

Spínat, egg og ostur sett í matvinnsluvél og hrært þar til verður að mauki. Blandið hvítlauksduft við blönduna (mega vera krydd að eigin vali) og hrærið í nokkrar sekúndur.  

Blöndunni dreift með skeið eða sleikju í hringlaga pizzabotn á bökunarpappír (einnig hægt að nota hringlaga kökuform). Bakist í um það bil 10 mínútur við 180°en þá er botninn tekinn út og honum snúið á hina hliðina. Bakið aftur í 5-7 mínútur. Botninn er fremur svampkenndur og eðlilegt er að kantarnir brúnist örlítið. Næst  er botninn tekinn út og pizzasósan ásamt áleggi að eigin vali sett á. Bakið að lokum í 7-10 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað og brúnast örlítið.

Kínóapizza

3/4 bolli kínóa látið liggja í bleyti í 8 klst.
1/4 bolli vatn
1/2 tsk salt
1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk hvítlauksduft
1 msk extra jómfrúar ólífuolía frá Himneskri Hollustu

Settu kínóað í skál og fylltu upp með vatni  svo vatnið sé ca 2,5 cm hærra en kínóað. Láttu liggja í bleyti í um það bil 8 klst. Sniðugt að gera þetta kvöldið áður eða jafnvel um morguninn.  

8 tímum síðar: Kveiktu á ofninum og stilltu hann á 200°sigtaðu vatnið frá kínóanu , skolaðu kínóað og sigtaðu aftur. Sigtað kínóað sett í blandara með 1/4 bolla vatni, saltinu, lyftiduftinu og hvítlauksduftinu ásamt 1 tsk af ólífuolíu. Blandað vel saman þar til blandan er kremkennd. 
Blöndunni dreift í hringlaga pizzabotn á bökunarpappír (einnig hægt að nota hringlaga kökuform). Bakist í 15 mínútur en þá er botninn tekinn út og honum snúið á hina hliðina. Bakið aftur í 10-15 mínútur. Því næst  er botninn tekinn út og sett á sósu og álegg að eigin vali. Bakið að lokum í 10-15 mínútur þar til osturinn hefur bráðnað og brúnast örlítið.

Snapchat:

RVKFIT 

Instagram:

ingibjorgthelma 

Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit