Ídýfa með kasjúhnetum og graslauk

31. ágúst 2018

Heil og sæl! Ég er á fullu að prófa mig áfram með kasjúhnetur í eldhúsinu og mig langaði að gera einhvers konar kasjúhnetu-rjómaosta-ídýfu, svolítið eins og hummus nema úr kasjúhnetum. Ef kasjúhnetur eru lagðar í bleyti þá verða þær svo rjómakenndar og það er hægt að búa til alls konar gúmmelaði úr þeim! Ég kalla þessa uppskrift 'ídýfu' en þetta getur alveg verið rjómaostur líka því það er æðislegt að skella ídýfunni beint á beyglu. Ég prófaði mig áfram með graslauk því ég átti nóg af honum til heima en það er líka hægt að prófa sólþurrkaða tómata, soðnar gulrætur eða rauðrófur jafnvel sætar kartöflur, bara hvað sem manni langar í! Ég mæli líka með að krydda ídýfuna með góðum kryddum, t.d. með ristuðum hvítlauki en ég notaði hvítlaukssalt. 

Innihald:

  • 200 grömm af kasjúhnetum frá Himneskri Hollustu (lagðar í bleyti yfir nótt)
  • Safi úr 1/2 sítrónu
  • Salt eða annað krydd eftir smekk
  • Ferskur graslaukur eftir smekk


Undirbúningur:

Leggið kasjúhneturnar í bleyti yfir nótt. Þið setjið þá hneturnar í ílát (skál eða krukku t.d.) og kalt kranavatn yfir þannig að vatnið nær að þekja yfir allar hneturnar. Geymið svo inn í ísskáp yfir nótt. Ef þið hafið ekki tíma í undirbúning þá er hægt að fara krókaleið og setja kasjúhneturnar í sjóðandi heitt vatn í 20-30 mínútur. Ég mæli þó með fyrri leiðinni!

Idyfa

Aðferð:

Byrjið á því að hella vatninu frá kasjúhnetunum. Skolið þær aðeins og setjið svo í matvinnsluvélina ásamt sítrónusafa og salti eða öðru kryddi sem þið viljið prófa. Þið þurfið líklegast að bæta við örlitlu af vatni til að hægt sé að blanda ídýfunni betur saman en það ætti ekki að þurfa meira en 1/2 dl af vatni. Stoppið 2-3 sinnum og skrapið meðfram hliðunum og haldið áfram að blanda saman. Þegar þið eruð komin með eitthvað sem líkist stöppu, þá skal bæta graslauknum út á. Hægt er að blanda honum saman með sleif en ég notaði matvinnsluvélina í nokkrar sekúndur. 

Berið fram með fersku grænmeti, snakki eða smyrjið á beyglu. Geymið afganga í lokuðu íláti í 3-5 daga.

Njótið!

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram

Þangað til næst, verið heil og sæl! 

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Himneska Hollustu

Höfundur: Asta Eats