Kókosbitar

16. mars 2018

Heil og sæl! Það er búið að vera alveg pakkað hjá mér þessa vikuna, vinnan, próf, fyrirlestrar, fundir og hópverkefni! Núna þegar það er aðeins farið að róast hjá mér nýtti ég tækifærið og lék mér aðeins í eldhúsinu. Ég dýrka kókos og ég dýrka dökkt súkkulaði svo það er engin furða að kókosbitarnir frá Himneskri Hollustu er í algjöru uppáhaldi. Ég vildi hins vegar prófa að búa til mína eigin útgáfu og viti menn, hún kom æðislega út! Kókos og súkkulaði eru sálufélagar .. ég er að segja ykkur það! Það er algjörlega hægt að leika sér með þessa uppskrift, t.d. búa til kúlur eða jafnvel stangir úr kókosblöndunni, leyfa þeim að mótast inn í ísskáp og dýfa þeim svo í gómsætt súkkulaði - þá kemur meira súkkulaðibragð sem ég hef ekkert á móti! Passið bara að eiga nóg af súkkulaði til þess að bræða! Ég legg kókosblönduna í brauðform og helli súkkulaði yfir og sker svo í marga bita en kókosbragðið er þá í aðalhlutverki frekar en súkkulaðið. Ég hvet ykkur til að prófa, sama hvaða aðferð þið notið! 

Innihald:

  • 100 grömm af kókosmjöli frá Himneskri Hollustu (það eru ca. 2,5 dl eða einn bolli)
  • 1 dl af fljótandi kókosolíu frá Himneskri Hollustu (það eru sirka 3-4 vænar msk af harðri kókosolíu)
  • 1/4 - 1/2 dl af hlynsírópi frá Naturata (þið getið líka prófað hunang)
  • 60 grömm af 75% súkkulaði frá Naturata + 1 tsk af kókosolíu 

_MG_6873

Aðferð

Byrjið á því að setja kókosmjölið, kókosolíuna og hlynsírópið í skál og hrærið vel saman. Leggið svo næst blönduna í form (ég nota brauðform) og munið eftir því að setja bökunarpappír undir svo auðvelt sé að taka kókosblönduna upp úr forminu. Ég klippi tvær lengjur af bökunarpappír og set þær í kross eins og þið sjáið á myndinni hér fyrir neðan. Það er auðveldara seinna meir að fjarlægja kókosblönduna á þennan hátt með því að toga í "spottana" fjóra. Stappið blöndunni vel niður og sléttið úr henni. Kókosblandan fer svo inn í ísskáp í 15-20 mínútur til að harðna en þökk sé kókosolíunni þá festist kókosinn vel saman!

Coconut

Næst skal bræða súkkulaðið. Ég bræddi 60 grömm af súkkulaði ásamt 1 tsk af kókosolíu í örbylgjuofninum en það er fljótlegra en að láta súkkulaðið bráðna yfir vatnsbaði. Þegar súkkulaðið er bráðnað þá hellið þið því ofan á kókosblönduna og dreifið vel úr því. Svo getið þið stráð kókos yfir en það er ekki nauðsynlegt.

Setjið því næst formið inn í ísskáp í 30 mínútur til að leyfa súkkulaðinu að kólna og harðna. Að þeim tíma loknum skal skera kókosinn í bita. Geymið kókosbitana í lokuðu íláti inn í ísskáp í nokkra daga. 

Njótið! 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram eða bætt mér við á Snapchat en ég er undir nafninu astaeats

Þangað til næst, verið heil og sæl! 

 Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu og Naturata

Höfundur: Asta Eats