RVKfit: Blómkáls taco

26. febrúar 2017

Hver sagði að taco gæti ekki verið hollt?
Sem mikill unnandi matargerðar frá Mexíkó þá finnst mér fátt betra en að fá mér taco. Sjálf kýs ég frekar að fá mér "soft-shelled tacos" eða taco með mjúkum skeljum en ég bý skeljarnar til sjálf. Þessar skeljar eru í raun pönnukökur eða tortillur, eins og má finna út í búð, en mér finnst best að búa þær til úr blómkáli. Blómkál er hitaeiningasnautt en inniheldur þrátt fyrir það mikið af steinefnum og vítamínum, svo sem C-vítamín og járn. Af þeim sökum er það afar mettandi. Hér að neðan má sjá uppskrift að blómkálspönnukökum eða blómkáls tortillum.   

Taco pönnukökur úr blómkáli
Uppskrift: 

1 blómkálshaus
2 egg
½ tsk hvítlauksduft
¼ tsk cayenne pipar
Salt og pipar eftir smekk
Ferskur kóríander eftir smekk

 • Blómkálshausinn er rifinn niður í litla bita og maukaður í matvinnsluvél. Gott að mauka í pörtum. Því næst er maukið sett í skál og inn í örbylgjuofn í 2 mínútur. Þá er maukið tekið út og hrært í því og svo sett aftur inn í örbylgjuofn í 2 mínútur. 
 • Þegar maukið hefur verið í örbylgjunni í alls fjórar mínútur er það tekið út og hellt á viskastykki. Þá er snúið uppá viskastykkið og aðal málið hér er að kreista allan vökvann úr blómkálsmaukinu - varið ykkur maukið er heitt! 
 • Þegar búið er að kreista allan vökva úr blómkálsmaukinu er það sett í skál og hrært saman með tveimur eggjum. Blandið því næst kryddunum við en þau eru smekksatriði og má breyta eða bæta eftir sínu höfði. 
 • Þegar „deigið“ er tilbúið er það sett á bökunarplötu og mótað í litlar pönnukökur. Úr einum blómkálshaus koma ca 6-8 pönnukökur, fer eftir stærð. 
 • Pönnukökurnar eru settar í 180° heitann ofn í ca 10 mínútur. Að því loknu eru þær teknar út og þeim snúið á hina hliðina (neðri hliðin fer upp), þá er þeim stungið aftur inn í ofn í 5-7 mínútur eða þar til kantarnir hafa brúnast örlítið. 

  Njótið vel!  Snapchat: RVKFIT 

  Instagram: ingibjorgthelma 

  Höfundur: Ingibjörg Thelma Leópoldsdóttir (RvkFit)