Sætar kartöflur í morgunmat

8. júlí 2019

Heil og sæl! Ég er mikill aðdáandi sætu kartöflunnar og borða mikið af henni. Sætar kartöflur eru stútfullar af beta-karótín sem gefur þeim appelsínugulan lit þeirra. Þær eru einnig trefjaríkar og innihalda mikið magn af C-vítamíni. Ég borðaði þær hins vegar einungis í kvöldmat en þessa dásamlegu kartöflu má líka borða í morgunmat! Ég hef verið að prófa mig áfram og hef þróað tvær uppskriftir sem ég vildi endilega deila með ykkur en sæta kartaflan er fullkomin í morgunmat ef maður vill prófa eitthvað algjörlega nýtt! Uppskriftirnar eru gerðar í samstarfi við Icepharma. Í báðum uppskriftum nota ég ofnbakaða sæta kartöflu. Ég hita ofninn upp í 200°C og leyfi kartöflunni að bakast í 30-60 mínútur en tíminn fer algjörlega eftir stærðinni á kartöflunni. Það er gott að stinga nokkur göt í kartöfluna með gaffli svo hún bakast betur eða jafnvel skera hana í tvennt eða fernt ef hún er mjög stór. Til þess að spara mér tíma á morgnana þá baka ég kartöflurnar stundum kvöldið áður og geymi þær inn í ísskáp og borða daginn eftir, kaldar eða heitar. Ég mun klárlega deila með ykkur fleiri skemmtilegum uppskriftum sem innihalda sætar kartöflur í framtíðinni og ég mæli svoooooo með að þið prófið sætar kartöflur í morgunmat!

Sætkartöflugrautur

Saetkartoflabowl2

Saetkartoflabowl

Innihald:

  • 1 sæt kartafla (ofnbökuð og hýðið tekið af)
  • 1 msk döðlusykur frá Himneskri Hollustu 
  • 1-2 tsk kanill (cinnamon) frá Himneskri Hollustu

Aðferð

Setjið ofnbökuðu kartöfluna í pott, stappið og bætið döðlusykri og kanil út á. Persónulega finnst mér kanillinn algjört möst - hann passar svo ofboðslega vel við sætar kartöflur! Ef þið eigið ekki döðlusykur þá mæli ég með dökku agavesírópi frá Himneskri Hollustu eða hlynsírópi frá Naturata.

Hitið og hrærið þar til grauturinn er orðinn volgur (þið getið líka borðað hann kaldan). Setjið grautinn því næst í skál og njótið með öllu því gúmmelaði sem þið viljið en ég mæli sterklega með berjum, banana og hnetu,- möndlu - eða kasjúhnetusmjöri. Aðrar gómsætar hugmyndir eru rúsínur eða döðlur, valhnetur eða pekanhnetur, graskersfræ eða hampfræ og skvetta af plöntumjólk!

Fyllt og sæt morgunverðarkartafla


Saetkartoflafyllt2

Innihald:

  • Ofnbökuð sæt kartafla (hýðið má vera á, munið þá að þrífa kartöfluna fyrst)

Aðferð

Þegar búið er að ofnbaka kartöfluna skal leyfa henni að kólna aðeins. Ef þið bökuðuð kartöfluna kvöldið áður þá er hægt að skella henni í örbylgjuofn til að hita hana aftur eða setja hana í ofninn í smá tíma (eða jafnvel borða hana kalda)

Fyllið hana síðan með ávöxtum að eigin vali (ég notaði bláber og banana) og smjöri að eigin vali (ég notaði kasjúhnetusmjör og möndlusmjör). Svo er líka frábært að setja grískt jógúrt út á kartöfluna ef þið viljið auka prótein og að sjálfsögðu má ekki gleyma að setja kanilinn góða út á!

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram en ég er undir nafninu astaeats.

Prófaðir þú þessar uppskriftir? Ef svo er þá máttu endilega segja mér hvernig tókst til!

Þangað til næst, verið heil og sæl!

Saetkartoflacloseup

Höfundur: Asta Eats

 Heimildir: Health Line