Sætur hummus

18. september 2018

  • Heil og sæl! Já, þið lásuð rétt - uppskrift dagsins er sætur hummus með súkkulaði og hnetusmjöri! Ég er alveg í skýjunum yfir þessum hummus og ég get ekki hætt að borða hann. Ég skal alveg viðurkenna að ég borða þennan hummus stundum eintóman, hann er hættulega góður! Annars er hann líka ljúffengur með jarðaberjum eða ofan á brauð eða beyglu. Ég nota að sjálfsögðu kjúklingabaunir í grunninn og tek hýðið af baununum svo hummusinn verður extra mjúkur. Þegar ég var að prófa mig áfram með þessa uppskrift hugsaði ég hvaða hráefni væru í hummus og notaði svipuð hráefni í sætari kantinum. Í staðinn fyrir sesamsmjör (e. tahini) notaði ég gróft hnetusmjör, í staðinn fyrir ólífuolíu notaði ég hlynsíróp, í staðinn fyrir sítrónusafa notaði ég kókosolíu og í staðinn fyrir salt notaði ég döðlusykur sem er í algjöru uppáhaldi í baksturinn. Döðlusykur er nefnilega ekki sykur heldur þurrkaðar döðlur sem eru svo malaðar niður í duft. Ég notaði svo kakóduft en passaði að setja ekki of mikið vegna þess að kakó er mjög bragðsterkt og því þarf ekki mikið af því. Þessi uppskrift er svo gómsæt, og svo auðveld. Eftir að maður er búinn að taka hýðið af kjúklingabaununum þá tekur enga stund að skella þessu öllu í matvinnsluvél, blanda og njóta!

Innihald:

  • 1 dós af kjúklingabaunum frá Himneskri Hollustu (skolaðar undir köldu vatni og hýðið tekið af)
  • 1-2 msk af kakódufti frá Himneskri Hollustu 
  • 1-2 msk af döðlusykri frá Himneskri Hollustu (eða af reyrsykri eða nokkrar döðlur)
  • 1 msk af kókosolíu frá Himneskri Hollustu (þarf ekki að vera fljótandi)
  • 2 msk af hnetusmjöri frá Himneskri Hollustu
  • 2 msk af hlynsírópi frá Naturata eða Sweet Like Syrup frá Good Good Brand
  • Nokkrir dropa af stevíu með vanillu frá Good Good Brand (má sleppa)

Hummus_1537292717816

Aðferð

Byrjið á því að hella kjúklingabaununum í sigti, skolið þær vel undir köldu vatni og takið hýðið af þeim. Setjið kjúklingabaunirnar í matvinnsluvél ásamt hinu hráefninu og blandið vel saman. Ef þess þarf bætið við nokkrum dropum af vatni og blandið áfram þar til þið fáið þykkt mauk. Geymið inn í ísskáp í loftþéttu íláti í allt að 5 daga. 

Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram 

Þangað til næst, verið heil og sæl! 


Þessi færsla er gerð í samstarfi við Himneska Hollustu, Naturata og Good Good Brand

Höfundur: Asta Eats