RVKFit: Steinaldarbrauð

8. febrúar 2017

Hollari brauðbakstur

Síðustu 10 ár hefur brauð ekki verið áberandi á mínum matseðli þá helst vegna hversu illa það fer í mig. Hef ég saknað þess oft á tíðum og langar oft í góða brauðsneið með smjöri og osti. Fyrir 3 árum heimsótti ég eldri bróður minn sem býr í sveitinni í Noregi, hann og konan hans neyta næstum bara fæðu sem þau rækta, ala eða baka sjálf. Konan bróður míns bakar þetta brauð oft í viku og varð ég algjörlega húkt. Brauðið er svo krönsí, bragðgott og fer einstaklega vel í magann minn. Það eina sem er í brauðinu er haframjöl, hnetur, fræ, egg og smá súrmjólk. Brauðið er einstaklega seðjandi, næringarríkt og hefur ótrúleg áhrif á meltinguna. Mig langaði að deila þessu uppáhaldi með ykkur, mæli einstaklega með því nýbökuðu með smjöri og osti. 

Steinaldarbrauð innihald:

120g valhnetur
120g möndlur
120g sólblómafræ
120g graskersfræ
120g hörfræ
120g sesamfræ frá Himneskri Hollustu
120g haframjöl frá Himneskri Hollustu
6 stk egg
1 dl súrmjólk
2 tsk sjávarsalt

Aðferð:

Blandið saman öllum hráefnum í skál. Hnetur eru blandaðar heilar út í og auðvitað má leika sér með hráefnin, bæta döðlum eða skipta út möndlum fyrir kasjúhnetum. Allt hægt bara hafa hlutföllin þau sömu. Deigið er sett í bökunarform við 175 gráður í 60 mínútur.

Braud

Höfundur: Hrönn Gauksdóttir

RVKfit