Vegan ostakaka + heimalöguð döðlukaramella

31. desember 2018

Heil og sæl! Nú kemur að síðustu færslu minni hér á H Magasín árið 2018 og ég ætla að enda árið með látum! Ég vildi endilega deila með ykkur uppskrift af vegan ostaköku af tegundinni 'turtle' sem er með pekanhnetum og dökku súkkulaði en hún er í algjöru uppáhaldi hjá mér! Ég ætla líka að deila með ykkur uppskrift af heimalagaðri döðlukaramellu sem er ómissandi með ostakökunni! Þessar uppskriftir eru gerðar í samstarfi við Himneska Hollustu, Naturata, Horizon, Chocolate & Love og Good Good Brand. Ég vildi annars þakka ykkur fyrir samfylgdina á þessu ári og ég hlakka svo sannarlega til ársins 2019. Áramótaheitið mitt er að gera meira af því sem ég elska, vera dugleg að smakka nýjan mat og prófa ný hráefni, ferðast meira og að lokum rækta líkama og sál. Ég vona innilega að 2018 hafi verið yndislegt hjá ykkur öllum og þið takið nýja árið með trompi!

Innihald:

Botn: Allt sett í matvinnsluvél/blandara og búið til deig.

 • 10 döðlur frá Himneskri Hollustu
 • 75 grömm af pekanhnetum frá Horizon
 • 100 grömm af möndlum frá Himneskri Hollustu
 • 2 msk hlynsíróp frá Naturata
 • 1 tsk kókosolía frá Himneskri Hollustu (má vera fljótandi eða í föstu formi)
 • Klípa af salti


Fylling: Allt sett í blandara og blandað þar til þið fáið silkimjúka áferð

 • 200 grömm kasjúhnetur (lagðar í bleyti yfir nótt eða a.m.k. 4 klst)
 • 4-5 msk hlynsíróp frá Naturata
 • 1 msk kókosolía frá Himneskri Hollustu (fljótandi)
 • 6-10 dropar karamellu stevía frá Good Good Brand


Efsta lag: Allt sett í blandara og blandað þar til þið fáið silkimjúka karamellu 

 • Döðlukaramella 

20 döðlur, lagðar í heitt bleyti í 30 mínútur + ½ dl hlynsíróp + ½ dl möndlumjólk + 4 dropar karamellu stevía + heitt vatn til að þynna. Allt sett saman í kröftugan blandara og blandað þar til þið fáið silkimjúka karamellu! Gott er að setja smá salt út í ef maður vil. 

 • Pekanhnetur (ég nota frá Horizon)
 • Súkkulaðibitar (ég nota 56% súkkulaði frá Chocolate & Love með kakónibbum)

Cheesecake-2

Dodlukaramella

Undirbúningur: Byrjið á því að leggja kasjúhneturnar í bleyti í a.m.k. 4 klst eða yfir nótt. 

Aðferð: 

Botn: Setjið allt hráefni botnsins í matvinnsluvél eða blandara og blandið þar til þið fáið mjúkt deig. Færið deigið í lítil muffins form og þekjið botninn og hliðarnar. Ég notaði sérstaka muffinsplötu og setti plastfilmu ofan í svo auðvelt væri að ná ostakökunum upp úr forminu. Setjið svo muffinsplötuna inn í frysti og byrjið á fyllingunni.

Fylling: Skolið kasjúhneturnar með köldu vatni eftir að þær hafa legið í bleyti. Setjið þær í blandara ásamt hinum hráefnunum og blandið vel saman þar til þið fáið silkimjúka áferð. Hellið svo fyllingunni ofan á ostakökubotninn og setjið inn í frysti í a.m.k. 5 klst eða yfir nótt. 

Efsta lag: Leggið döðlurnar í heitt bleyti í 30 mínútur. Þetta mýkir döðlurnar talsvert. Sjóðið þá vatn upp að suðu og hellið heitu vatni yfir döðlurnar og leyfið þeim að liggja. Á meðan getið þið skorið niður pekanhneturnar og súkkulaðið. Þegar 30 mínútur eru liðnar skal setja döðlurnar í blandara, bæta við hlynsírópi, möndlumjólk, stevíu og örlitlu salti. Ef þess þarf bætið við heitu vatni til að auðvelda blöndun. Þegar döðlukaramellan er tilbúin og ostarkökurnar búnar að vera inn í frysti þá skal setja döðlukaramelluna á toppinn og bæta við pekanhnetum og súkkulaðibitum. 

Ostakökurnar geymast best inn í frysti. Takið þær út 20-30 mínútum áður en þær eru borðaðar. Döðlukaramelluna skal geyma inn í ísskáp ef það er afgangur og skal neyta innan nokkra daga. 

Njótið!

 Takk fyrir að fylgjast með mér hér á H Magasín. Ef þið viljið fylgjast betur með mér getið þið fylgt mér á Instagram.

Sjáumst á næsta ári! Lifið heil og sæl! 

Cheesecake1

Höfundur: Asta Eats